Survival of the "fattest"?

Hér með viðurkenni ég og opinbera að ég hef aldrei verið sérstaklega hrifin af Bandaríkjamönnum, sem þjóð. Auðvitað eru þetta kannski vissir fordómar og er ég ekki að alhæfa um alla sem í Bandaríkjunum búa heldur meira að gagnrýna samfélagið sem slíkt og þau viðhorf sem þar ríkja. Ég er meira að segja orðin svo hneyksluð á þessum undarlegheitum öllum að ég hef sett mér það markmið að stíga aldrei fæti inn í Bandaríkin.

Bandaríkjamenn státa sig af því að búa í einu besta samfélagi heims og þar fer fólk til að láta drauma sína rætast. Ekki vildi ég fyrir fimm aura skipta á íslensku samfélagi og bandarísku. Þar sem ber helst að nefna varðandi það er skólakerfið og heilbrigðiskerfið sem virkar þannig að ef maður á enga peninga getur maður étið það sem úti frýs. Lífs- og starfsframalíkur barns sem fæðist inn í fátæka fjölskyldu eru talsvert minni en þeirra sem fæðast inn í fjölskyldu af miðlungs efnum. Hvað getur maður gert ef fjölskyldan hefur enga sjúkratryggingu og háskólanám er algjörlega óraunhæft markmið? Jú, það þarf að vinna vinna og vinna. Lágmarkslaun eru um 7 dollarar á klukkustund, hefur verið óbreytt í fjölda ára. 7 dollarar eru 480 krónur. Það er ekki mikið.

Ég er ekki frá því að meiri pening hefur verið eytt á hvern íbúa í Íraksstríðinu en á hvern Bandaríkjamann á sama tíma. Hvernig í ósköpunum geta stjórnvöld réttlætt þvílík fjárútlát í stríðsrekstur þegar fjöldi Bandaríkjamanna á ekki bót fyrir boruna á sér? Mér finnst Bush stundum of upptekinn af flísunum í augum annarra þjóða (t.d. Íraka og Sómala) til að sjá bjálkann í sínu eigin. Með því að nota þann pening sem fer í stríðsrekstur ár hvert væri vissulega hægt að byggja upp eitt besta samfélag heims, sem Bandaríkjamenn státa sig nú þegar ef, svo ekki sé minnst á hvað væri hægt að gera til hjálpar enn hrjáðari þjóðum.

Þetta fer alveg ólýsanlega mikið í taugarnar á mér. Mér hálf býður við þessu öllu saman. Ég eyði án efa allt of mikilli orku í að pirra mig á þessu. Ég nota hvert tækifæri til að úthúða Bandarískt samfélag og skipulagningu þess. Þættirnir 30 days sem sýndir eru á sunnudagskvöldum á Skjá einum hjálpa ekki til. Ég fussa og sveia yfir öskupunum, yfir því hvað Bandaríkjamenn geta verið ótrúlega þröngsýnir og asnalegir.

Ég uppgötvaði þá allt í einu eitt. Kannski ætti ég einnmitt að fara í þrjátíu daga dvöl til "all american" fjölskyldu til að minnka fordóma mína. Kannski er ég ekkert skárri en gaurinn sem úthúðaði samkynhneygða seinasta sunnudag. Ég ætti að búa hjá Texas fjölskyldu sem elskar BBQ og svínarif, Bud og Bush. Kannski þarf ég að fá slíka uppljómun sem hommahatarinn fékk í sjónarpsþættinum til að læra að meta Bandarískt samfélag. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að margt í Bandarísku samfélagi er gott en ég get ekki annað en látið margt hjá þeim fara í taugarnar á mér. Þó ekki nema væri óeðlilega hátt samansafn hamborgararassa, því ég er viss um að Bandaríkjamenn hafa misskilið kenningu Darwins um þróun tegundanna og gera allt til að vera sem "fattest" en ekki "fittest"!


Hundar

Ég hreinlega dýrka hunda, og þá sérstaklega hann Saku minn, og er það eitthvað sem ég held að flestir viti, viti þeir þá eitthvað um mig á annað borð. Mér finnst mjög mikilvægt að hundur finni að manni þyki vænt um hann og vilji honum vel. Það er alveg lygilegt hvað hundar geta gefið til baka. Það er ótrúlegt að einhver sé svo glaður að sjá mann að hann veit vart í hvaða löpp hann á að stíga (þótt fjórar séu!).

Það fer þá líka í taugarnar á mér þegar einhver er vondur við hunda, og nú fer ég að koma að mergi málsins (því einhverjum er áreiðanlega farið að leiðast þetta væmna taut í mér).

Málið er s.s. það að í raðhúsinu fyrir aftan okkur er hundur bundinn við krók á bíl. Það er augljóslega einhver í heimsókn hjá þessu fólki og hundurinn er ekki velkominn inn. Mælirinn hjá mér segir -12°C og hundurinn situr í snjónum. Það eru 20 mínútur síðan ég kom heim og hundurinn er búinn að gelta stanslaust í þann tíma, jah eða gelta og væla til skiptis. Ég veit ekkert hvað hann er búinn að vera lengi.

Ég finn svo svakalega til með hundinum að ég næ ekki einu sinni að pirra mig á geltinu. Mér er skapi næst að hringja í fólkið og biðja þau að gera eitthvað í þessu. Svona á bara náttúrlega EKKI að fara með hunda!

Set hérna með eina mynd af honum Saku mínum, uppáhalds elsku besta InLove

Rosa stoltur

Peruvandræði

Sko! Þessi dagur byrjaði nú frekar undarlega. Áður en ég fór í vinnuna þurfti ég að skrifa smá minnismiða. Þar sem enn var frekar dimmt úti kveikti ég ljósið við eldhúsborðið og ætlaði að tilla mér niður. Það gekk nú ekki alveg því peran sprakk þegar ég reyndi að kveikja á henni. Þá ætlaði ég að skrifa miðann á helluborðinu og nota ljósið í gufugleypinum. Sú pera sprakk þá bara líka. Svo ég skrifaði miðann í myrkrinu.

Í vinnuna komst ég þó en þá var staðan nú ekki betri en það en þar var einmitt farin pera líka. Þrjár perur í lífi mínu sprungu með frekar stuttu millibili, merkir það eitthvað sérstakt eða er þetta bara ein af þessum tilviljunum...


Stirður líkami

Ég get ekki annað en ritað hér nokkur orð um gærdaginn, nánar tiltekið seinnipartinn og fram til klukkan rúmlega 7.

Við höfðum um það sterkan grun að allnokkuð væri búið að snjóa í fjallinu hlíða. Við ákváðum því að fara uppeftir og reyna að ná nokkrum góðum bunum eftir vinnu. Var þetta með betri ákvörðunum sem ég hef tekið um ævina. Ég sver að aldrei hef ég skíðað í jafn djúpu og fínu púðri. Það var svo mikið að oft á tíðum stóð snjóstrókurinn upp yfir mig þannig að ég sá ekki handa á skíða minna skil og svo auðvitað fór megnið af snjónum upp í mig þegar ég reyndi að anda. Ég held að ég hafi ekki borðað svona mikinn snjó síðan ég var 10 ára! Skíðuðum aðallega í "púðurbakkanum" svokallaða og það virtist engum hafa dottið í hug að skíða þar í gær fyrr en við komum. Þvílík unun.

Við skíðuðum og skíðuðum og gerðum okkar besta til að ná sem flestum ferðum því það átti að loka kl 7. Það lýsir held ég best ákafanum að mér var mjög heitt allan tímann þó að mælirinn í bílnum sýndi -13°C (og svo reyndar -15°C þegar niður í bæ var komið). Ég var ansi þreytt í gærkvöld og nú er ég voða stirð eitthvað, með svona hálfgerða strengi á ansi mörgum stöðum! Strengirnir minna mig þó bara á gærdaginn, sem er gott...


Nýtt ár

 Picture 064

Jú, eins og Lára benti réttilega á er komið nýtt ár og ég hef ekkert bloggað síðan fyrir jól. Svona er þetta bara stundum, maður þarf jólafrí frá tækniöldinni eins og mörgu öðru.

Jólin voru voða fín eins og von var á. Ég borðaði náttla allt of mikið og fór allt þetta kjötát eitthvað illa í minn viðkvæma maga og er mér ennþá ill í maganum eftir þessa áttörn. Er að reyna að laga þetta ástand.

Fórum í brúðkaup til Eydísar og Gulla milli jóla og nýars. Alveg yndislegt hreint og var Eydís án efa með glæsilegri brúðum sem sést hafa norðan alpafjalla svo lengi sem elstu menn muna. Volvoinn vakti líka mikla lukku og var Eilífur alveg eins og atvinnubílstjóri á drossíunni. Þessi dagur rennur seint úr minni. Ég náði ekki góðri mynd af brúðhjónunum saman en ég náði ágætri mynd af Eydís með pabba sínum þegar þau voru að ganga inn kirkjugólfið, leyfi henni að fylgja með.

 

Svo er önnur mynd af Saku. Hún er tekin á aðfangadag þegar Gísli var að skera svínalærið. Við vorum nebbla með fjölskyldu Jens um jólin, eins og undanfarin jól, og þar er finnskur jólamatur. Svínalæri, ofnbakaðar stöppur, finnskt brauð, síld, finnskt salat, lax, silungur, hangikjöt, laufabrauð og sveskjugrautur í eftirrétt. Við stóðum í stappi við eldamennskuna í 2 daga. En Picture 062allavega, Saku er mikill áhugahundur um kjötskurð eins og sést glöggt á þessari mynd. Hann borðaði náttla algjörlega yfir sig af kjöti um jólin því af nógu var að taka, eins og sést á myndinni. 7 kílóa svínslæri er meira en ein fjölskylda getur torgað á þetta stuttum tíma!


2 dagar!

Já gott fólk, við erum að tala um tvo daga! Hvorki meira né minna! Mér þótti mjög ánægjulegt að jólin hjá mér kæmu ekki um seinustu helgi þó ég hafi þjófstartað á aðventukransinum. Þetta er greinilega ekki svo nákvæmt tímamælingatæki.

Tvennt verð ég að segja núna.

Í fyrsta lagi fussaði ég og sveiaði á þá sem sögðu mér fyrir um mánuði síðan að jólin ættu að vera rauð. Ég fussaði og sveiaði líka fyrir viku. Ég hefði aldrei trúað því að hitinn gæti sveiflast frá -5 upp í +13 á einu degi, og það í desember. Þetta er náttúrulega ákaflega sorglegt en ég er enn svo hissa á þessu að ég átta mig varla á þessu.

Annars vegar vildi ég tala um skammdegið. Nú í dag og í gær (þar sem ég er komin í jólafrí!!!) hef ég fengið að sofa aðeins lengur en til 7 sem er ákaflega skemmtilegt. En ég verð að segja að það kemur mér verulega á óvart hvað dagurinn er orðinn stuttur. Ekki það að ég hefði nú ekki átt að vita það en skammdegið hefur bara einhvern veginn farið fram hjá mér. Auðvitað er dimmt þegar ég fer í vinnuna kl 8 en svo er ég bara lokuð inni í skólanum og hef ekki tekið eftir því hvað það birtir seint. Svosem ágætt að missa af þessu. Í dag voru svo reyndar vetrarsólstöður svo að nú fer daginn aftur að lengja. Vona að það fari ekki jafn mikið framhjá mér.

... svo eitt að lokum.
Eitt það sem mér finnst fallegast við finnskt mál er hvernig mánuðirnir eru sagðir. Þeir hafa allir einhver nöfn sem tengjast árstíðinni og svo enda þeir á "tungl". T.d. er desember joulukuu - jólatungl. Mér finnst svo fallegt að tala um tungl. Svo er til sumartungl, eikartungl og fleira. Mjög skemmtileg!


Lokaspretturinn

Jæja, þá hefst lokaspretturinn og vonandi að maður eigi nóga orku fyrir smá sprett í lokinn. Þrír kennsludagar eftir (fullt af verkefnum að fara yfir). Jólakortaskrif að mestu eftir, nokkrir pakkar ókeyptir (það er þó farið að sjá til sólar í þeim málum) og svo kemur Katri í kvöld. Katri er alltaf merki um hvað það er ótrúlega stutt í jólin.

Á laugardaginn lauk EM í krullu. Er ég þess full viss um að allnokkrir hafa fylgst með þessari æsispennandi keppni! Að minnsta kosti fylgdist ég full aðdáunar með mörgum snilldar töktum.  Privivkova, rússnesski fyrirliðin var alveg ótrúlega góð! 20 ára og búin að spila krullu í 8 ár! Nú verður maður bara að stúdera vídjóin og læra taktana!


8 dagar

Júbb, bara 8 kennsludagar fram að jólafríi! Ekki amarlegt það. Allt komið á fullt! Búin að gera eina smákökusort, búin að kaupa í konfekt, jólakortin eru í prentun, jólagjafirnar smá mjakast og allt í gangi sko. Jólalögin farin að óma og tilhlökkunin eykst.

Var í jólahlaðborði áðan, enn ein átveislan! Tókst samt núna að borða þannig að mér leið ekki illa á eftir af seddu, sem er gott. En ég er þó ennþá pakksödd.

Keyptum skenk áðan til að hafa þarna í eldhúskróknum við hliðina á ísskápnum þar sem ekkert passar. Fundum loksin eitthvað! Fundum skenk, akkúrat eins og við höfðum hugsað okkur, í útsölumarkaðnum þar sem Byko var á Glerártorgi. Alveg á heeellings afslætti, enda hefði ég aldrei keypt þetta fullu verði! Nú er Jens s.s. að smíða og ég að reyna að myndast við jólahreingerningu. Það er bara alltaf svo margt annað spennandi hægt að gera en svoleiðis Halo 

Svo fékk ég fyrsta jólakortið í pósti á fimmtudaginn, einhver voðalega tímanlega í þessu!

Hmm, svona eftir á að hyggja er þessi færsla svona frekar mikið jóla-jóla. Það reyndar lýsir líðan minni seinustu daga, hugsa ekki um annað en jólin!

Hóhóhó!


Sunnudagur

Æja já. Þá er áthelgin mikla að verða búin. Búin að borða alveg svaaaakalega mikið. Þarf aðeins lýsa kvöldinu og ég er viss um að þið getið sjálf ímyndað ykkur líðan mína eftir matinn í gær.

Fordrykkur: Stjáni blái

Forréttir: Grafinn lax, innbakaður lax, 4 gerðir af brauði, 3 gerðir af síld, rækjuréttur, salat út á síldina, egg, tómatar.

Aðalréttir: Hangikjöt með öllu tilheyrandi. Purusteik með öllu tilheyrandi.

Eftirréttir: riz à l'amande (ég fékk ekki möndlua), kaffi, after eight, konfekt.

Jeminn eini, ég var alveg að kafna ég var svo hrikalega södd sko! Það var samt voðalega gaman. Fólkið sem Jens vinnur með er agalega fjörugt og stemningin var góð.

Í gær fórum við á nýja grænmetisstaðinn niðri í bæ. (Í hádeginu þ.e., það má náttla ekkert slaka á átinu!). Uss hvað þetta var gott. Ég gæti alveg hugsað mér að borða þarna alltaf í hádeginu. Verst að bankareikningurinn er ekki sammála Undecided 

Nú er ég loksins búin að fá að kveikja löglega á fyrsta kertina í fína kransinum mínum. Nú get ég loksins farið að njóta hans. Svo logar dagatalskertið mitt nánast dag og nótt (já eða þannig svona) og ég er enn ekki komin niður að 1. des. Agalegt. Verð að vinna í þessu!


Gríðarleg tilhlökkun

Ég hlakka alveg ótrúlega mikil til helgarinnar. Ég hef fulla trú á að hún verði jafn skemmtileg og seinasta helgi var mikið klúður. Sko! Annaðkvöld er árshátíð MA. Það er ótrúelga skemmtilegt alltaf. Geggjaður matur, ég fyllist lúmsku stolti af að sjá nemendur mín láta ljós sitt skína á ýmsum sviðum og svo spila Jagúar á ballinu. Ekki amarlegt það! Svo á laugardagskvöldið er julefrokost hjá vinnunni hans Jens, já eða þeim sem eru saman á stofunni, eru nokkur fyrirtæki en samtals tæplega 10 manns. Þá er allskonar fínn matur, alþjóðlegur jólamatur. Rosa gott sko! Það eru miklar líkur á að ég komist á skíði um helgina. Svo ætlum við að byrja aðeins á jólaundirbúningi um helgina, a.m.k. aðeins byrja á jólahreingerningunni. Svo má ég loksins kveikja (aftur) á fyrsta kertinu í kransinu.

Á mánudaginn heldur fjörið áfram því á mánudagskvöldið spilum við úrslitaleikinn í bikarmótinu í krullu. Já! Þið lásuð rétt! Við erum að fara að spila um 1. sætið!!! Þessi  keppni hefur gengið ótrúlega vel. Þetta er útsláttarkeppni sem þýðir að við höfum unnið alla leiki fram að þessu! erum alveg í skýjunum yfir þessu!

Svo má náttúrulega ekki gleyma jólunum. Er farin að hlakka alveg rosalega mikið til.

Þvílík hamingja!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband