Færsluflokkur: Bloggar

Vegir liggja til allra átta...

Jæja, þá er maður bara kominn heim aftur. 2 vikna ferðalag afstaðið, finnst ég vera búin að vera í 2 mánuði því við erum búin að gera svo mikið. Þegar ég kom heim þurfti ég að stoppa og horfa í kringum mig til að rifja upp hvernig íbúðin lítur út. Kom mér bara satt að segja pínu á óvart.

Ferðin var alveg meiriháttar, já nema rétt bláendinn.  Ég ætla ekki að skrifa alla söguna hérna en það eru allir velkomnir í heimsókn að skoða myndir og drekka Muscat frá Korsíku. Hérna koma þó nokkrir punktar:

  • Allan tímann var 30 stiga hiti.
  • Löbbuðum á snjó í 1700 metra hæð á miðri Korsíku.
  • Það er gaman að vera á Ítalíu og á Frakklandi þegar heimamenn vinna leik á HM (þó ég hafi í raun ekkert gaman af fótbolta). Allir sátu úti á börum að horfa á leikina, þeir barir sem ekki settu upp stórt tjald eða sjónvarp voru dauðadæmdir. Svo glumdi í öllum bænum þegar heimamenn skoruðu. Geggjuð stemning.
  • Ég hef aldrei verið jafn hrædd í bíl og á Sardiníu. Allstaðar í vegakantinum voru blómvendir, þeir hræddu mig. Ítalarnir fóru framúr eins og þeir vildu deyja. Það er ekki eðlilegt að 4 bílar fara saman í runu fram úr trukki á mjóum vegi á fjallshlíð þar sem er klettaveggur öðru megin og grindverk hinumegin (svo snarbratt niður) þar sem það er í þokkabót heil lína (þ.e. bannað að fara framúr) og svo hlykkjóttur vegur að ekkert sást framfyrir. Ég er alveg hissa á að við sáum ekki stórslys á leiðinni. En mikið rosalega var ég hrædd.
  • Sáum Páfann á Péturstorginu í Róm. Hlustuðum á ræðu hans og blessun á hádegi á sunnudegi. Fengum því miður ekki að tefla við hann í þetta skiptið.
  • Ég borðaði 10 pizzur í ferðinni. Hver annarri betri! Geri aðrir betur!! Fengum annars fullt af öðru fínu að borða og fuuullt af ís, oh svo góður ís! Langar að vinna í ísbúð í Nice næsta sumar!
  • Fékk fullt af fínu kaffi á Ítalíu.  Esspressoið á Stansted var svakalegt piss miðað við það sem við fengum á Ítaíu. 

Ferðin var alveg ótrúlega frábær nema seinasta daginn. Fórum nefnilega út á vitlausan flugvöll (hafði ekki hugmynd um að þeir væru tveir í Róm) og misstum af fluginu okkar. Eiginlega samt ekki alveg bara okkur að kenna. Fórum mjög tímanlega út á flugvöll og þegar við sáum að við vorum á vitlausum stað töluðum við við einhverja menn í information þarna á flugvellinum. Þeir sögðu okkur að setjast og bíða, þeir myndi redda okkur shuttle bus sem færi með okkur á hinn flugvöllinn fyrir 50 evrur. Við settumst niður og biðum. Hálftíma seinna kom kallinn og sagði að þetta gengi ekki, það væri leigubílaverkfall í Róm og leigubílstjórar væru að stöðva alla umferð. Shuttle bus mennirnir hefðu því svo mikið að gera að þeir kæmust ekki að sækja okkur. Þá akkúrat var lest að fara og við þurftum að bíða dálítið eftir næstu. Við eyddum því klukkutíma í ekki neitt sem hefði nægt okkur til að taka lest til baka og komast á hinn flugvöllin, alveg frábært hreint! Þurftum því að vera einni nótt lengur. Fundum okkur eitthvað ódýrt hótel nálægt lestarstöðinni. Það var hrikalegt. Það var alveg ótrúlega heitt á herberginu. Lá um nóttina og svitnaði og svitnaði. Hafði á endanum engan þurran stað á rúminu til að liggja á, lakið var orðið alveg rennandi vindandi blautt. Fegin að losna þaðan.

Á heimleiðinni hef ég borðað eitthvað skemmt því um nóttina í Reykjavík vaknaði ég með þvílíkar magakvalir að ég vissi bara ekki hvað var að gerast. Tæmdi allt sem innan úr mér út um öll möguleg göt. Fékk meira að segja smá hita. Er orðin betri samt núna.

Þannig að fyrir utan endinn var ferðin frábær. Hvet alla til að kíkja í kaffi og kíkja á myndir, svona sérstaklega af því ég er í sumarfríi!

Hérna með er svo ein mynd þar sem við Jens erum í Restonica dalnum á miðri Korsíku. Löbbuðum upp að Lac de Melu vatninu sem er í 1700 metra hæð.

 


c_documents_and_settings_ibm_my_documents_my_pictures_nice-korsika-sardinia-rom_kubbur1_picture_235.jpg

Nice-Korsíka-Sardinía-Róm

Nú eru 4 dagar í reisuna miklu. Ég er aðallega kvíðin. Nokkru fyrir ferðalög ríkir venjulega mikil tilhlökkun og mér finnast þær vikur ótrúlega stór hluti af ánægjunni við ferðalög. Þegar ég kem heim úr ferðalögum er ég venjulega ekki sárust með að vera komin aftur heim (því oft langar mann að vera lengur) heldur er ég leið yfir að geta ekki lengur hlakkað til ferðalagsins. Þar sem ég hef hlakkað alveg óvenju mikið til þessa ferðalags finnst mér mjög leiðinlegt að núna eru bara 4 dagar eftir af tilhlökkun. Ráðið við þessu er að vera alltaf búin að skipuleggja annað ferðalag áður en maður fer eitthvert. Svo að þegar heim er komið er hægt að hlakka til þess næsta. Ég hef nú bara staðið mig nokkuð vel í því svo það ætti ekki að vera miklu að kvíða.

Góð helgi að baki. 17. júní, útskrift og veisla í höllinni eins og venja er. Það var mjög gaman í öllu saman, kom mér á óvart hvað ég hafði gaman af útskriftinni sjálfri, og svo var kvöldið náttla frábært. Fyrir utan þegar ég var alveg að sofna og alveg að springa því ég borðaði svo mikið. Í dag var sunnudagur. Ég held að það sé varla hægt að lýsa deginum betur en það, eins mikill sunnudagur og sunnudagur getur orðið.


Með hækkandi sól...

...fækkar bloggunum hjá mér. Er það nú ekki bara alveg eðlilegt?

 Stend í ströngu þessa dagana við að semja og fara yfir próf. Þetta er allt að klárast og nemendur farnir að skoppa út úr skólanum eins og beljur sem hleypt er út í fyrsta skipti á vorin. Kannast við þá tilfinningu.

Skellti mér suður um seinustu helgi. Það var svona algjör stelpuhelgi. Fékk far með Huldu og blöðruðum við alla leiðina eins og ég veit ekki hvað. Svo gisti ég hjá Önnu Siggu og blöðruðum við ennþá meira. Fór í Kringluna, Smáralind og á djammið. Hópur sænskra verkfræðinema sýndi okkur Önnu Siggu gríðarlegan áhuga. Verst að okkar áhugi var ekki jafn mikill. Enn þeirra hélt því fram að Roxette væri það heitasta í dag. Hann var hálf sár þegar Anna Sigga sagði nú að það væri gamaldags. Þeir virtust ekki hafa mikinn húmor þessir drengir. Vonandi fundu þeir aðrar stúlkur sem hrifust af sænsku brosi og syngjandi hreim.

Nú er alveg skelfilega stutt í miðjarðarhafsreisuna okkar Jens. Nice-Korsíka-Sardinía-Róm. Förum eftir tæpar tvær vikur, ég er bara alveg komin með í magann sko! Alveg hrikalega spennandi.


Jibbí, júhú, bravó, vúúúú!!!!!!!!!!!!

Var rétt í þessu að klára og senda seinasta verkefnið mitt í vetur, og þar með seinasta verkefni í náminu! Hver hefði trúað þessu. Þvílík tilfinning! Af því tilefni er ég um það bil að fara að borða ís! Jeij, til hamingju ég!

Nú er það bara að ráðast á lokaverkefnið. Er komin af stað með það, er búin með rannsóknarvinnuna og nú þarf ég bara að vinna úr öllu heila klabbinu :D


Mikil átök fyrir svona stutta helgi

Já, það hefur heldur betur mikið gengi á þessa helgina, og er hún alls ekki búin. Á föstudag var ég hálf slöpp í vinnunni og heldur betur óglatt. Þegar ég kom heim úr vinnunni var ég satt að segja alveg að drepast í maganum og Jens pakkaði mér undir teppi upp í sófa þar sem ég svaf í 3 tíma. Um kvöldið var ég alveg að sálast í maganum, gat ekkert borðað og var komin með hita Gráta Ég fór snemma að sofa um kvöldið og svaf í 13 tíma takk fyrir! Kom niður smá morgunmat þegar ég vaknaði en var svo aftur að sálast í maganum og gat ekkert borðað. Lá bara upp í sófa allan daginn. Seinnipartinn var ég nú eitthvað að hressast, sem betur fer, því okkur hafði verið boðið í mat um kvöldið. Við fórum og kusum og fórum svo í mat. Ég reyndar kom ekki miklu niður, var ennþá að drepast í maganum en orðin hressari. Eftir þetta kíktum við í smá partý og skánaði maginn eftir því sem leið á kvöldið.

Nú er kominn sunnudagur, maginn kominn í svo gott sem þolanlegt horf, hitinn alveg farinn og ég á að vera að læra. Er að reyna að klára seinasta verkefni vetrarins, þ.e. að lokaverkefninu undanskildu, sem á eftir að taka allt sumarið. Svo erum við að fá gesti í mat í kvöld. Þannig að það er hvergi gefið eftir! Best að koma sér aftur að verki!


Vetrarveður

Hvað er málið með að þurfa að skafa í morgun! Ekkert smá mikill snjór á bílnum! Eru himnarnir að gráta slakt gengi okkar í Eurovision?

MMMMM, súkkulaði

Í mars var haldið telemark festival hérna á Akureyri sem Jens tók þátt í. Í tengslum við það fengu tveir Nýsjálendingar, nú búsettir í Sviss, gistingu hjá okkur í tvær nætur. Við gátum ekki látið þau gista í bílnum sem þau leigðu. En allavega. Fengum frá þeim pakka í dag til að þakka fyrir gistinguna. Frá fáum er jafn fínt að fá pakka og frá þeim þar sem hann er einhver stór kall hjá Nestlé í Sviss. Fengum alveg rosalega gott súkkulaði, eitthvað rosa fínt sem ég hef aldrei séð hérna. Svo fengum við líka kort af svæðinu þar sem þau búa með merktum skíðaleiðum og eitthvað. Geggjað. Þvílíkt súkkulaði!

Maður ætti að reyna að vingast við fleira fólk sem vinnur hjá súkkulaðifyrirtækjum Hlæjandi


Eurovision

Jæja, þá er það fyrsti í júróvísjón í kvöld. Þvílík snilldar hugmynd að hafa svona forkeppni, þá er hægt að fara í tvö júróvísjón partý á ári! Það er bara jákvætt sko! Annars er búið að vera kreisí að gera á öllum vígstöðvum undanfarið. Lokaspretturinn í öllu, náminu, kennsluni og bara allt. Ég er búin að læra/vinna myrkranna á milli og er að verða frekar þreytt á þessu.

Þegar ég sat fyrir framan tölvuna um daginn að reyna að læra, og náttúruelga alveg að sofna rakst ég á grein um streitu og svefn. Þar stóð eftirfarandi:

Eftir eins sólarhrings vöku skerðist hæfni manna verulega, til dæmis að aka bifreið. Á öðrum og þriðja sólarhring vöku eru misskynjanir algengar. Eftir fjögurra sólarhringa vöku koma löng tímabil misskynjana og ofskynjana. Áframhaldandi vaka skviptir alla ráði.

Ég þorði ekki annað en að fá mér undir eins blund þegar ég var búin að lesa þetta, það var nú ljúft. Ég hef alltaf haft mikla trú á svefni en þessa dagana er hann mitt helsta áhugamál!

 


Annar hrollur

Ég fékk bara sting fyrir hjartað þegar ég las þetta. Er ekki ágætt að hugsa núna "allt sem Morgunblaðið segir er satt", æ þið vitið. Vill maður trúa þessu?


mbl.is 12 ára stúlka á von á barni í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

*hrollur*

Var að keyra í gær og þurfti einu sinni sem oftar að stoppa á ljósum. Sá ég þá mér til mikillar skelfingar feitan sveittan kall sem var stopp á umferðareyju og var eitthvað að huga að keðjunni. Hann var í þröngum og skítugum gallabuxum sem sigu laaaaangt niður þegar hann beygði sig. Ég fæ bara enn hroll um mig alla við tilhugsunina, þvílíkt ógeð, og á miðri umferðareyju á fjölfarinni götu á háannatíma. Sumir þurfa nú að endurskoða sinn gang!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband