4.2.2007 | 17:40
Survival of the "fattest"?
Hér með viðurkenni ég og opinbera að ég hef aldrei verið sérstaklega hrifin af Bandaríkjamönnum, sem þjóð. Auðvitað eru þetta kannski vissir fordómar og er ég ekki að alhæfa um alla sem í Bandaríkjunum búa heldur meira að gagnrýna samfélagið sem slíkt og þau viðhorf sem þar ríkja. Ég er meira að segja orðin svo hneyksluð á þessum undarlegheitum öllum að ég hef sett mér það markmið að stíga aldrei fæti inn í Bandaríkin.
Bandaríkjamenn státa sig af því að búa í einu besta samfélagi heims og þar fer fólk til að láta drauma sína rætast. Ekki vildi ég fyrir fimm aura skipta á íslensku samfélagi og bandarísku. Þar sem ber helst að nefna varðandi það er skólakerfið og heilbrigðiskerfið sem virkar þannig að ef maður á enga peninga getur maður étið það sem úti frýs. Lífs- og starfsframalíkur barns sem fæðist inn í fátæka fjölskyldu eru talsvert minni en þeirra sem fæðast inn í fjölskyldu af miðlungs efnum. Hvað getur maður gert ef fjölskyldan hefur enga sjúkratryggingu og háskólanám er algjörlega óraunhæft markmið? Jú, það þarf að vinna vinna og vinna. Lágmarkslaun eru um 7 dollarar á klukkustund, hefur verið óbreytt í fjölda ára. 7 dollarar eru 480 krónur. Það er ekki mikið.
Ég er ekki frá því að meiri pening hefur verið eytt á hvern íbúa í Íraksstríðinu en á hvern Bandaríkjamann á sama tíma. Hvernig í ósköpunum geta stjórnvöld réttlætt þvílík fjárútlát í stríðsrekstur þegar fjöldi Bandaríkjamanna á ekki bót fyrir boruna á sér? Mér finnst Bush stundum of upptekinn af flísunum í augum annarra þjóða (t.d. Íraka og Sómala) til að sjá bjálkann í sínu eigin. Með því að nota þann pening sem fer í stríðsrekstur ár hvert væri vissulega hægt að byggja upp eitt besta samfélag heims, sem Bandaríkjamenn státa sig nú þegar ef, svo ekki sé minnst á hvað væri hægt að gera til hjálpar enn hrjáðari þjóðum.
Þetta fer alveg ólýsanlega mikið í taugarnar á mér. Mér hálf býður við þessu öllu saman. Ég eyði án efa allt of mikilli orku í að pirra mig á þessu. Ég nota hvert tækifæri til að úthúða Bandarískt samfélag og skipulagningu þess. Þættirnir 30 days sem sýndir eru á sunnudagskvöldum á Skjá einum hjálpa ekki til. Ég fussa og sveia yfir öskupunum, yfir því hvað Bandaríkjamenn geta verið ótrúlega þröngsýnir og asnalegir.
Ég uppgötvaði þá allt í einu eitt. Kannski ætti ég einnmitt að fara í þrjátíu daga dvöl til "all american" fjölskyldu til að minnka fordóma mína. Kannski er ég ekkert skárri en gaurinn sem úthúðaði samkynhneygða seinasta sunnudag. Ég ætti að búa hjá Texas fjölskyldu sem elskar BBQ og svínarif, Bud og Bush. Kannski þarf ég að fá slíka uppljómun sem hommahatarinn fékk í sjónarpsþættinum til að læra að meta Bandarískt samfélag. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að margt í Bandarísku samfélagi er gott en ég get ekki annað en látið margt hjá þeim fara í taugarnar á mér. Þó ekki nema væri óeðlilega hátt samansafn hamborgararassa, því ég er viss um að Bandaríkjamenn hafa misskilið kenningu Darwins um þróun tegundanna og gera allt til að vera sem "fattest" en ekki "fittest"!
Athugasemdir
ja hérna hér, þú kemur aldeilis sterk inn :)
valla (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 19:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.