24.9.2006 | 22:45
...að sofa út
Svaf almennilega út í morgun í fyrsta skiptið í rúmlega mánuð. Hversu sorglegt er það. Ekki furða þó ég hafi verið orðin hálf lurkum lamin? Er búin að vera eins og drusla síðan ég kom heim frá Búlgaríu, alltaf illt í maganum og með hausverk. Er í þokkabót að fá hálsbólgu og kvef. Hvað í ósköpunum nældi ég mér í í Búlgaríu?
Nóg kvart. Í gær fórum við í haustferð kennara og starfsmanna MA. Keyrðum fyrst að Dettifossi að vestanverðu. Held ég hafi aldrei séð hann þeim megin. Hann er vissulega tilkomumeiri frá þessu sjónarhorni en þó er ómögulegt að ná af honum góðri mynd þeim megin því það er ekki hægt að ná honum öllum í einu. Næst var keyrt að Hólmatungum. Menn bundu miklar vonir við að geta létt á sér þar en það reyndist ógerningur þar sem kamarinn var kominn á hliðina, tilbúinn undir veturinn. Þaðan var gengið niður í "katlana" og svo áleiðis í Vesturdal. Við gengum samtals rétt tæplega 10 km í betra veðri en bjartsýnustu menn þorðu að óska sér. Sólskin, logn og hlýtt miðað við árstíma. Gönguleiðin var undur fögur og haustið farið að sveipa náttúruna litríkum blæ. Að göngunni lokinni var haldið í Skúlagarð. Þar snæddum við lambalæri, hangikjöt og tilheyrandi og svo köku og kaffi í eftirrétt. Spilað var á harmonikku og dansað. Stemningin var mjög góð og maturinn engu síðri.
Var samt hálf þreytt á bakaleiðinni. Gerði mitt besta til að sofa í rútunni sem gekk ekki alveg sem skildi.
Framan á Fréttablaðinu í gær var flottasta fyrirsögn sem ég hef séð lengi. Kakkalakkafaraldshætta. Náði þetta orð yfir alla forsíðuna, feitletrað og áberandi. Þvílík snilld. Hnitmiðað og auðskiljanlegt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.