Sárir fætur

Jæja, þá erum við komin heim. Ferðin var geggjuð, veðrið enn betra og allt heppnaðist vel. Ekkert skemmdist, bílinn er heill, tjaldið heilt (þ.e. hitt tjaldið okkar), við erum heil og ég held enn sem komið er að ekkert hafi týnst. Hvarð er málið!! Þetta bara stenst ekki.

Vorum búin að skipuleggja 3ja daga gönguferð um Hornstrandir sem varð óvart að 4 dögum vegna þess að við vorum dregin í fjallgöngu daginn fyrir gönguferðina sem mér þótti ekki sniðugt fyrirfram og heldur ekki  þegar niður var komið því ég fékk svo stórar blöðrur og varð sár í löppunum. Við lögðum samt af stað daginn eftir með sára og plástraðar lappir. Ferðin gekk alveg ótrúlega vel, veðrið lék við okkur allan tímann og við stóðum okkur eins og hetjur.

Prógrammið var svona:
Dagur 0: Óskipulagða fjallgangan; gengið á Darran og gamlar stríðsminjar skoðaðar. Ca 10 km.
Dagur 1: Sæból í Aðalvík - Hesteyri. 12 km.
Dagur 2: Hesteyri - Fljótavík. 13 km.
Dagur 3: Fljótavík - Sæból. 16,7 km.

Við gengum því rúmlega 50 km á 4 dögum með rétt tæplega 2000 m hækkun samtals sem dreifðist jafnt niður á dagana þó hækkunin hafi komið á mis stuttum tíma, allt frá löngum aflíðandi dal í nánast lóðrétt klifur, eða amk mjög bratt.

Seinasti dagurinn var ótrúlegur. Fórum fyrst um snarbratt og mjög grýtt fjall. Og by the way, það er ekki eðlilegt að þurfa að kúka í miðri snarbrattri grjótbrekku!!! Urg, þótti ekki gaman að bíða þá. Hinumegin var fjallið meira aflíðandi og við rætur þess tók við vegur niður að Látrum. Þar tók við geggjuð skeljasandsströnd í marga kílómetra, það var æðislegt að labba þar og rosa gaman að vaða tvo ósa í svoleiðis sandi. Þá tók við erfiðasti kafli leiðarinnar. Strönd full af stórgrýti og þurftum við að hoppa á milli steina í 1 og hálfan klukkutíma. Það var ógeðslega erfitt. Búin að ganga í 4 daga orðin þreytt í löppum og líkama. Við vorum frekar dugleg við að detta þá. Eitt skipti datt ég aftur fyrir mig en var sem betur fer með úttroðinn bakpoka á bakinu sem mýkti fallið. Verst að ég datt á milli tveggja steina og sat þar föst með lappirnar upp í loftið. Frekar fyndið. Af öllum okkar stóð hundurinn sig lang best í þessu, hann var eins og fjallageit og hoppaði út um allt!

Næst tók við ekki minna erfiður kafli þó styttri væri. Þar sem það var komið flóð komumst við ekki alla leið á steinaströndinni heldur þurftum að fara upp snarbratt bjargið fyrir ofan okkur. Þar lá kaðall sem maður gat haldið í og svo var bara að klifra! Hugsa að þetta hafi verið 15-20 m upp í loft, ekki allt þó lóðrétt. Og þetta var sko erfitt! Með þungan bakpoka og allt!!! Erfiðast var þó með hundinn því hann er ekki mikill klifurköttur! Við leystum það þannig að Jens fór upp og tæmdi bakpokann sinn og kom aftur niður. Þá var hundgreyinu troðið oní bakpokann og lokað fyrir (ekki gekk að láta hann hafa hausinn uppúr því þá komst hann uppúr pokanum auk þess sem hann hefði tryllst af hræslu ef hann hefði séð hvað var í gangi). Svo klifraði Jens upp með 26 kg hund á bakinu. Ógeðslega fyndið að sjá hann klifra upp eins og eldingu með bakpoka sem iðaði og skókst í allar áttir. En hundurinn var ekki lítið glaður að komast úr pokanum. Hristi sig eins og vitleysingur og var lafmóður.

Þetta reddaðist allt saman þó við höfum öll verið með smá hnút í maganum yfir þessu klifri. Ég var samt dauðfegin að sjá þetta ekki almennilega fyrr en eftirá. Þegar við gengum niður hlíðina og vorum komin niður á strönd sáum við fyrst hvernig þetta leit út almennilega og ég fór bara að skellihlægja. Ég hefði ALDREI farið þarna ef ég hefði vitað hvernig þetta leit út svona í fjarlægð. Málið var að þegar maður var neðst sást ekki alla leið upp svo ég vissi ekkert hvað ég var að fara útí þegar ég byrjaði að klifra! Jæja, þetta reddast allt og við munum seint gleyma þessari ferð!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

haha.. ég ætla að vona að þú hafir verið að tala um hundinn sem þurfti að kúka á þessum óhentuga stað :) en hann hefur kosið bakpokaaðferðina frekar en sundið eða? ;)
Valdís

Valdís (IP-tala skráð) 29.7.2006 kl. 10:36

2 Smámynd: Anna Panna

Nei, það var ekki svo gott að það væri hundurinn!

Annars fékk hann engu ráðið um þessa bakpokaferð, það hefði verið svo langt sem hann hefði þurft að synda að það var eiginlega ekki í boði. Það er frekar erfitt að útskýra fyrir honum að synda yfir að ströndinni og bíða eftir okkur þar!

Anna Panna, 29.7.2006 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband